Flýtileiðir á vef Háskóla Íslands:


Flýtileiðir:

Fara efst a siðu

Spurning af vísindavef:

Fara efst a siðu
Vísindavefurinn
Er mikið C-vítamín í papriku?

Jarðvísindastofnun Háskólans

Jarðvísindastofnun Háskólans
Innskráning í Uglu:

Eyjafjallajökull kort

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull er eitt stærsta eldfjall á Íslandi og eitt af fáum sem flokka má sem eldkeilu,en sú gerð eldfjalla er algeng víða um heim.  Fjallið er um 1660 m hátt og ílangt austur-vestur.  Undirhlíðarnar eru brattar og að miklu leyti gerðar úr móbergi frá jökulskeiðum.  Ofan 500-600 m er brattinn minni.  Ofan 900-1000 m hæðar er fjallið þakið jökli.  Efst á Eyjafjallajökli er lítil askja (sigketill), 2-2.5 km í þvermál. Askjan er þakin jökli en eftir ummerkjum að dæma er hún grunn.  Askjan er opin mót norðri þar sem brattur skriðjökull, Gígjökull, fellur niður á láglendi.  Nokkrir klettar standa upp úr jöklinum á börmum öskjunnar.  Þeirra á meðal eru Innri og Fremri Skoltur, Goðasteinn, Guðnasteinn og Hámundur (hæsti tindur jökulsins).

Veturinn 1999-2000 sýndu mælingar landris og aukna skjálftavirkni við Eyjafjallajökul.  Hliðstæður atburður varð 1994.  Þessir atburðir benda til aukins aðstreymis kviku sem gæti leitt til eldgoss í Eyjafjallajökli.  Vitað er um eldgos í Eyjafjallajökli 1612 og 1821-1823.  Litlar heimildir eru um fyrra gosið en nokkrar um það seinna.  Bæði virðast hafa verið fremur lítil.  Gosið 1821-1823 varð í tindi fjallsins, að því er virðist í norðvesturhluta öskjunnar.  Jökulhlaup komu undan Gígjökli meðan á gosinu stóð.
Haustið 2000 kom skyndilega jökulvatn í Lambafellsá sem á upptök í Svaðbælisheiði. Við athugun kom í ljós að ný kvísl rann undan jöklinum rétt vestan við upptök Laugarár.  Efnagreiningar sýna að kvíslin ber ýmis einkenni jarðhitavatns. Þessi aukning í jarðhita á svæðinu er trúlega afleiðing atburðanna 1999-2000, þegar kvika barst hátt upp í jarðskorpuna undir sunnanverðum Eyjafjallajökli.

Hér að neðan eru nokkrar ljósmyndir af Eyjafjallajökli, teknar úr lofti í júlí og desember 1999.  Á þeim eru þekkt örnefni og nokkur mismunandi sjónarhorn á jökulinn.  Þessar myndir ættu að geta komið að gagni til samanburðar, ef breytingar verða á jöklinum.  Í vinstra horni myndanna sýna hornklofar frá hvaða sjónarhorni myndirnar eru teknar.

  
Hiti efst á Eyjafjallajökli 27. janúar 2002
Þann 27. janúar varð vart við jarðhita í jökulsprungum efst á Eyjafjallajökli. Úr tveimur sprungunum lagði daufa brennisteinslykt auk þess sem vottaði fyrir gufu. Sprungurnar eru á kolli sem rís öskjurimanum í suðvesturhorni öskjunnar. Kollur þessi er nafnlaus en u.þ.b. mitt á milli Goðasteins og Guðnasteins. 8. og 9. mynd sýna staðinn.
Ekki er vitað til að jarðhiti hafi verið í toppi Eyjafjallajökuls, a.m.k. síðustu áratugi. Enn er óljóst hvað veldur þessum hita, en líklegt er að hann sé afleiðing grunnra kvikuinnskota sem áttu sér stað samfara jarðskjálftahrinunni haustið 1999. Við innskotin hafi bergið hitnað og hitinn leiti upp m.a. í jaðri öskjunnar. Hliðstæðra breytinga varð vart haustið 2000 en þá varð Lambafellsá óvenju vatnsmikil og kom vatnið úr jöklinum ofan Seljavalla (sjá 4. mynd).
Myndirnar hér neðst á síðunni sýna staðinn þar sem hiti fannst í janúar 2002.

.

Smellið með bendlinum á myndirnar til að sjá þær stærri  og með myndatextaLoftmynd af Eyjafjallajökli
loftmynd
Ljósmynd af Eyjafjallajökli - horft úr vest-norðvestri
1. mynd.
Ljósmynd af Eyjafjallajökli - horft úr vest-norðvestri
2. mynd.
Ljósmynd af suðvestur hluta Eyjafjallajökuls
3. mynd.
Ljósmynd af suðurhlíð Eyjafjallajökuls
4. mynd.
Ljósmynd af suðaustur hluta Eyjafjallajökuls
5. mynd.
Ljósmyn af Eyjafjallajökli - horft úr norðaustri
6. mynd.
Ljósmynd af Eyjafjallajökli - tindar í suðurbarmi öskjunnar
7. mynd.
Staðsetning jarðhita í janúar 2002 á loftmynd
8. mynd. Hiti 27.01 2002
Jarðhiti í janúar 2002
9. mynd. Hiti 27.01 2002

.

Umsjón með síðu:
Þórdís Högnadóttir, disah@raunvis.hi.is
Magnús Tumi Guðmundsson